Ferðakostnaður og gisting
Ríki og sveitarfélög
Kostnaður vegna ferðalags innanlands á vegum stofnunar skal greiðast eftir reikningi, en greiða skal dagpeninga ef um það er samið eða ekki hægt að leggja fram reikninga. Sama gildir ef hluti vinnudags er unninn svo lagt frá föstum vinnustað að starfsmaður þarf að kaupa sér fæði utan heimilis eða fasts vinnustaðar. Starfsmenn skulu fá fyrirframgreiðslu áætlaðs ferðakostnaðar. Um uppgjör ferðakostnaðar, þar með talið akstursgjald, fer eftir sömu reglum og um uppgjör yfirvinnu.
Kostnaður vegna ferðlags til útlanda skal greiðast eftir reikningi enda fylgi ávallt farseðlar eða önnur fullnægjandi gögn. Annar ferðakostnaður á ferðalögum erlendis greiðist með dagpeningum. Þegar vinnuveitandi ráðstafar tíma starfsmanns fjarri föstum vinnustað telst ferðatími til vinnutíma. Sé unnin yfirvinna í ferðum hvorki greidd samkvæmt tímareikningi né fellur undir fasta yfirvinnu starfsmanns, skal semja um þá greiðslu fyrirfram við viðkomandi starfsmann.
Ýtarlegar upplýsingar um dagpeninga og aksturgjald ríkisstarfsmanna á ferðalögum innanlands sem og utan má finna á á vef fjármálaráðuneytisins.
Almennur vinnumarkaður
Kostnaður vegna ferðalaga innanlands skal greiðast eftir reikningi en greiða skal dagpeninga ef um það er samið eða ekki hægt að leggja fram reikninga. Dagpeningagreiðslur til starfsmanna vegna ferða erlendis fylgi ákvörðunum Ferðakostnaðarnefndar ríksins hafi fyrirtæki ekki sérstakar reglur um greiðslu ferðakostnaðar.